Engu skiptir þótt þeir sem grunaðir eru um skattaundanskot hafi greitt það sem þeir stungu undan með álagi þegar tekin er ákvörðun um að senda málið til sérstaks saksóknara, sem ákærir í málinu. Eitt slíkra mála var þingfest í gær. Það varðar það sem sérstakur saksóknari nefnir meiri háttar brot lögmannsins Péturs Þórs Sigurðssonar , eiginmanns Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, á skatta- og bókhaldslögum.

Sérstakur saksóknari hefur ákært hann fyrir meint undanskot á virðisaukaskatti á árunum 2009 og 2010 og fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald Lögfræðistofunnar ehf. Málið var þingfest í gær og var honum þá skipaður verjandi. Pétur lýsti yfir sakleysi sínu, segist hafa greitt skattaskuldina fyrir tveimur árum. Ekki náðist í Pétur þegar eftir því var leitað í gær. Sérstakur saksóknari krefst sektargreiðslu og fangelsisrefsing, sem getur orðið allt að sex ár.

Skattrannsóknarstjóri með viðmið

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði í samtali við vb.is í febrúar síðastliðnum skattayfirvöld hafa ákveðin viðmið um það hvaða mál eru send áfram til sér­staks saksóknara. Það hafi ekkert með endurgreiðslur og álag að gera.

„Mönnum ber að greiða þetta. Það þýðir ekki að ef menn greiði leiðréttingu að þá sé fallið frá mál­inu,“ sagði hún. Upphæðin miðast við undanskot skatta upp á sjö milljónir króna sem þýðir í grófum dráttum vantaldar fjármagns­tekjur upp á um 70 milljónir króna. Skattaundanskot Péturs nemur samkvæmt ákæru sérstaks saksóknara 18,8 milljónum króna.