„Skuldabréfamarkaðurinn er framsýnn. Það endurspeglast í væntingum markaðarins sem gerir ráð fyrir hækkun stýrivaxta í kjölfar dóms Hæstaréttar í gengislánamálinu,“ segir Valdimar Ármann, sérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA. Töluverð lækkun varð á skuldabréfamarkaði í dag. Þar af lækkaði vísitala óverðtryggðra skuldabréfa GAMMA um 0,6% á meðan vísitala verðtryggðra skuldabréfa stóð í dag.

Valdimar segir hættu á að væntanleg endurgreiðsla vaxta á gengislánum leiði til auðsáhrifa hjá almenningi. Þótt endurútreikningur vaxta verði ekki í formi endurgreiðslu heldur í lækkun á höfuðstól lána þá hafi auðsáhrif neysluhvetjandi áhrif.

„Þegar lánið lækkar þá finnst þér þú verða ríkari. Annað hvort notarðu ráðstöfunartekjur þínar í neyslu eða tekur annað lán sem nemur mismuninum,“ segir Valdimar.

„Endurgreiðsla í formi beingreiðslu inn á bankareikning skilar sér í aukinni einkaneyslu sem eykur verðbólgu. Í fyrsta lagi skiptir máli hversu verðbólguhvetjandi dómurinn er. Í öðru lagi þar sem hann er verðbólguhvetjandi þá getur það aukið líkurnar á því að Seðlabankinn hækki stýrivexti til að sporna við þenslu á innlendum markaði. Í þriðja lagi hefur verið talað um að ríkissjóður fái arðgreiðslur úr bönkunum, jafnvel á þessu ári. Gengislánadómurinn mun klárlega skerða getu bankanna til að eiga möguleika á að greiða eigendum sínum arð. Það gæti valdið því að ríkissjóður verði að gefa út meira af ríkistryggðum skuldabréfum. Þetta samanlagt hefur allt mjög neikvæð áhrif á óverðtryggð  skuldabréf á meðan þau verðtryggðu eru að einhverju leyti varin gegn verðbólguhækkun. Í raun er þetta neikvætt fyrir skuldabréfamarkaðinn,“ segir Valdimar.