Í gær var samþykkt á Alþingi að framlengja um 5 ár í viðbót, lög um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Auk þess var endurgreiðsluhlutfall rekstrarkostnaðar hækkað úr 20% í 25% af framleiðslukostnaði til jafns við það sem gerist meðal annars í Noregi. Mun þessi hækkun kalla á um 60 milljóna króna aukaútgjöld fyrir árið 2017.

Einn þingmaður greiddi atkvæði á móti

Gildistími laganna sem upphaflega voru sett árið 1999 hefur ítrekað verið framlengdur og endurgreiðsluhlutfallið hækkað en það var í upphafi 12%. Auk framlengingar og hækkunar er gert ráð fyrir skipun nefndar sem sjái um úthlutun endurgreiðslunnar í lögunum, sem samþykkt voru af 38 þingmönnum úr öllum flokkum.

Af þeim sem ekki voru fjarverandi greiddi Sigríður Andersen, Sjálfstæðisflokki, ein atkvæði gegn lögunum en Frosti Sigurjónsson, Framsóknarflokki, sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Þetta kemur fram í frétt RÚV um málið.