Hilmar Harðarson, formaður Samiðnar, Samtaka iðnfélaga, segir að átakið „Allir vinna" hafi sannað sig svo um munar á þessum erfiðu tímum en í átakinu var brugðist við efnahagsástandinu af völdum COVID-19 og var endurgreiðslan tímabundið hækkuð úr 60% í 100%.

Samiðn telur mjög brýnt að framlengja átakið „Allir vinna“ en það á að öllu óbreyttu að renna út í lok þessa árs. Hilmar bendir á að heimild til endurgreiðslu á virðisaukaskatti hafi verið víðtækari á þessu tímabili en áður og tekur m.a. til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og bílaviðgerða.

„Alls hafði Skattinum borist tæplega 19 þúsund umsóknir um endurgreiðslur á virðisaukaskatti um miðjan ágúst vegna ofangreindra verkefna. Það verður að taka með í reikninginn að umsóknirnar geta varðað kostnað sem hefur fallið til á fyrri árum af því að það eru ekki tímamörk á því hvenær þarf að vera búið að sækja um,“ segir Hilmar.

„Þannig eru umsóknir vegna kostnaðar á árinu 2020 yfir sama tímabil frá janúar og fram um miðjan ágúst tæplega 14 þúsund. Endurgreiðslur samtals vegna endurbóta og viðhalds námu tæplega 2,3 milljörðum króna á tímabilinu janúar til 18. ágúst 2020 en eins og áður segir er um að ræða kostnað sem féll til á fleiri árum. Búið var að afgreiða tæplega 3.500 umsóknir vegna endurbóta og viðhalds á áðurnefndu tímabili vegna kostnaðar á árinu 2020 en enn er mikið óafgreitt af umsóknum ársins.“

Á tímum COVID-19 hefur samdráttur orðið víða í atvinnulífinu og Hilmar segir það mikilvægt að horfa til verkefna sem stuðla að atvinnusköpun sem flestra.

„Verkefnastaða iðnaðarmanna var góð í sumar en það er allsendis óvíst hvernig veturinn verður en búast má við áframhaldandi ágjöf á atvinnulífið. Það er því brýnt að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og stuðla að því að það skili mikilvægum virðisaukandi verkefnum til samfélagsins,“ segir Hilmar.

„Samiðn telur virkilega þörf á að þetta átak haldi áfram en með því eru tvær flugur slegnar í einu höggi. Átakið lækkar annars vegar kostnað almennings en það er mikilvægt að hann geti leitað til fagmanna varðandi byggingarframkvæmdir og bílaviðgerðir og hins vegar verndar það mikilvæg störf í iðngreinum."

Vill að verkefnið nái til viðgerða á bílum

Hilmar segir einnig mikilvægt að sveitarfélögin grípi til enn frekari framkvæmda enda tekur umrædd endurgreiðsla einnig til framkvæmda og viðhalds á öllu húsnæði í eigu þeirra.

„Nú er lag að sveitarfélögin fari í framkvæmdir sem hafa lengi setið á hakanum sem og horfi til nýrra verkefna sem mikilvægt er að fara í,“ segir Hilmar sem vill meina að verkefnið sé mikilvægt neytendamál.

„Fólk leitar nú frekar til faglærðra varðandi endurbætur og viðhald. Með átakinu er verið við að sporna gegn því að endurbætur á húsnæði, viðgerðir og viðhald ökutækja fari fram í svörtu hagkerfi um leið og við tryggjum faglærðum áframhaldandi vinnu. Þetta átak er því gríðarlega mikilvægt í báðar áttir. Það vinna allir. Það var einnig afar mikilvægt að víkka þetta átak út og að það taki nú einnig til viðhalds og viðgerða fólksbifreiða."