Ef endurgreiðslur á vöxtum gengislána eiga sér stað, þá getur það leitt af sér aukna einkaneyslu og innflutning, veikara gengi, aukna verðbólgu og hækkun verðtryggðra lána.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

„Það þýðir að þeir sem ekki tóku gengislánin borga hluta reikningsins í formi hærri verðbólgu,“ segir Þorbjörn Atli Sveinsson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, spurður um hugsanleg áhrif af dómi Hæstaréttar á miðvikudag. Hann telur jafnframt að stýrivextir muni að líkindum verða hærri en ella en bendir á sem fyrirvara, að í raun sé allt of snemmt að draga einhverjar ályktanir því mikil óvissa felist í endurgreiðslunum.

„Við vitum ekki um hvaða fjárhæðir er um að ræða og á hvaða tíma þær mögulega koma til greiðslu. Eins er ómögulegt að segja til um hversu mikið fer í lækkun skulda og hvað mun fara beint í neyslu. Áhrifin til næstu 6 til 12 mánaða verða áreiðanlega mjög lítil þar sem nokkur tími mun líða þar til endanleg niðurstaða liggur fyrir,“ segir Þorbjörn Atli.