Í dag var opnuð heimasíða sem gerir viðskiptavinum sem höfðu bókað ferð hjá föllnu ferðaskrifstofunni Thomas Cook, kleift að sækja um endurgreiðslu ferða sem féllu niður vegna falls ferðaskrifstofunnar. Það hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig, en samkvæmt frétt BBC hefur síðan átt erfitt með að höndla mikinn fjölda heimsókna. Hefur fjöldi viðskiptavina lent í því að villumelding hafi komið upp um leið og þeir reyndu að senda inn kröfur sínar.

Bresk flugmálayfirvöld hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að vegna „ófyrirséðs álags“ á heimasíðuna hafi sumir viðskiptavinir lent í vandræðum með að senda inn kröfur. Eru viðskiptavinirnir sem hafa lent í slíku hvattir til að prófa að senda inn kröfuna á ný síðar í dag.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá, sigldi Thomas Cook í þrot fyrir tveimur vikum síðan. Að sögn breskra flugmálayfirvalda munu um 360 þúsund viðskiptavinir fá ferðir sínar endurgreiddar að 60 dögum liðnum.