Norsk stjórnvöld og fyrirtæki hafa kært til EFTA dómstólsins nýlega ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) í máli er varðar undanþágur tiltekinna aðila frá greiðslu raforkuskatts. Raforkuskattinum, sem rekja má til ársins 1971, var m.a. ætlað að hafa jákvæð umhverfisleg áhrif í för með sér og leiða til hagkvæmari nýtingar á raforku.

Hin kærða ákvörðun ESA var á þá leið að undanþágur framleiðslufyrirtækja, sem og fyrirtækja í tilteknum jaðarbyggðum (Finnmörk o.fl.), frá raforkuskatti, fæli í sér ríkisaðstoð sem væri óheimil út frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og bæri því norskum stjórnvöldum að krefja viðkomandi styrkþega um endurgreiðslu styrksins með vöxtum frá þeim tíma sem ríkisaðstoðin var veitt. Samtals námu þessar skattaundanþágur alls um 4.765 milljónum norskra króna á árinu 2002.

ESA féllst ekki á þau sjónarmið norskra stjórnvalda að um almennar skattaundanþágur væri að ræða (sem hluta af almenna skattkerfinu) heldur leit svo á að þær væru sértækar. Að mati ESA nægir það eitt og sér að undanþágurnar nái til framleiðsluiðnaðar en ekki almennrar þjónustu, til að
um sértækar undanþágur, í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES samningsins, sé að
ræða sem raski samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða
framleiðslu ákveðinna vara. Með hliðsjón af reglunni um lögmætar væntingar taldi ESA hins vegar rétt að miða kröfu um endurgreiðslu við tímabilið frá 6. febrúar 2003 þar sem að þann dag var ákvörðun ESA um formlega rannsókn á málinu birt í EES viðbæti Stjórnartíðinda Evrópusambandsins. Verður málið tekið til meðferðar hjá EFTA dómstólnum í vetur og er niðurstöðu að vænta með vorinu.