Ólíklegt er að unnt sé að gera endurbætur á Landeyjarhöfn eins og hún er í dag þannig að ekki þurfi að standa í reglulegri dýpkun hennar án þess að farið sé í róttækar lausnir sem krefjist endurhönnun hafnarinnar, til að mynda með gerð nýrrar hafnar utan þeirrar sem nú stendur.

Þó er ekki víst að það dugi að því er fram kemur í nýrri skýrslu um framkvæmd og nýtingu Landeyjarhafnar en hún er áfangastaður ferjunnar Herjólfs sem sinnir samgöngum við Vestmannaeyjar.

Samkvæmt skýrslunni , sem ráðgjafafyrirtækið Vatnaskil vann í samvinnu við hollenskan sérfræðing á sviði sandflutningsrannsókna sem og verkfræðiskrifstofuna Mannvit, í kjölfar þingsályktunartillögu Alþingis, er of snemmt að segja hvort endurbætur á höfninni séu yfir höfuð gerlegar.

Höfundar skýrslunnar komast að þeirri niðurstöðu að til að ná markmiðum um stóraukna nýtingu hennar sé þörf á róttækri endurhönnun á höfninni. Mótvægisaðgerðir hafi ekki dugað hingað til og ætla má að erfitt sjólag utan hafnar muni áfram takmarka siglingar nýrrar ferju.

Nýtingarhlutfallið batnað með nýjum Herjólf en enn einungis 90%

Óánægju hefur löngum gætt í Vestmannaeyjum með nýtingu Landeyjarhafnar, en nýtingarhlutfall hennar var einungis 70% á tímabilinu 2012 til 2013, þó nýtingin hafi farið upp í 90% frá júlí 2019 til maí 2020 í kjölfar þess að nýr Herjólfur sem er grunnristari var tekinn í gagnið.

Meðal dæma um mögulega útfærslu endurbóta á höfninni er bygging nýrrar hafnar utan við rifið sem tengd væri eldri höfn með brú, en eins og áður segir er ólíklegt að það myndi þýða að þörfin fyrir reglulegar dýpkunaraðgerðir myndu hverfa.

Viðlíka lausnir sem myndu leiða til skjólmyndunar milli rifs og hafnarmynnis gagnvart háum öldum eru þó taldar geta bætt siglingarhæfi ferjunnar sem þannig myndu vera líklegar til að styðja við dýpkunaraðgerðir. Jafnframt gæti þörfin fyrir þær minnkað enn frekar vegna þess að nýr Herjólfur ristir grynnra á siglingu en sá eldri.

„Það er mikilvægt að hafa fengið í hendur óháða úttekt á framkvæmdum og nýtingu Landeyjahafnar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

„Hún segir að við þurfum að horfa hvort tveggja til setlagamyndunar og öldufars við mögulegar úrbætur. Þá gefur hún til kynna að tilkoma nýja Herjólfs, sem ristir grynnra en eldri ferja og hóf siglingar árið 2019, hafi ein og sér haft góð áhrif á nýtingu hafnarinnar, sem er mjög gott að fá staðfest. Ljóst er að skýrslan er mikilvægur og góður leiðarvísir þannig að Landeyjahöfn geti þjónað hlutverki sínu að fullu.“