Byssusmiðirnir hjá fyrirtækinu Holland og Holland hafa endurhannað nýjustu gerðina af Range Rover. Þar með er orðinn til mesti lúxusjeppi allra tíma að því er fram kemur á vefsíðu Telegraph.

Nýr Range Rover Autobiography frá verksmiðju kostar 75.695 pund (14,9 milljónir króna fyrir utan innflutningsgjöld og tolla) sem þykir dálagleg upphæð. Þegar byssusmiðirnir hjá Holland og Holland hafa farið höndum um gripinn kemur hann hins vegar til með að kosta 139.650 pund eða 27,6 milljónir fyrir utan gjöld og tolla. Bílarnir verða sérlega rúmgóðir og einungis verður þar að finna fjögur sæti og er þá veglegur stokkur á milli aftursætanna líkt og á milli framsæta.

Holland og Holland mun einungis endursmíða 100 Range Rover bíla. Mikið er lagt í alla hluti og má t.d. nefna að það tekur 130 tíma að vinna tveggja tóna lakkið á hvern bíl. Innréttingar í bílunum eru allar hinar glæsilegustu og kemur hnota þar víða við sögu eins og í byssusmíðinni. Þá eru skinnin í sætum og innréttingum þau fínustu sem þekkjast og af svipuðum nótum og í fínustu lúxusþotum.

Að sjálfsögðu eru líka handsmíðaðir byssuskapár í skottinu og sjálfáfyllandi drykkjaskápar eru einnig í bílunum. Kæliskápurinn getur tekið sex vínflöskur í fullri stærð. Sér framleiðandinn þá um að alltaf séu nægar byrgðir í skápunum, allavega fyrsta árið. Við afhendingu er í skápnum Pol Roger kampavín, Balvenie single malt whisky, Hendrick's single batch gin, Ivan the Terrible lúsus vodka og Willow Spring vatn frá Lake District.

Stýrishjól bílanna er sérhannað og er hægt að fá það útskorið í stíl við útskurðinn á byssu eigandans. Þá verður veglegur áletraður stálskjöldur í hverjum bíl að hætti Holland og Holland.

Bílarnir verða líka með þokkalegt vélarafl. Undir húddinu verða ýmist 503 hestafla upptjúnnaðar V8 bensínvélar eða TD V8 dísilvélar.