Þegar Seðlabanki Íslands tilkynnti um söluna á FIH var sagt að hún væri 103 milljarða króna virði. Það er þó alls óljóst. Nýir eigendur FIH staðgreiða einungis hluta þeirrar fjárhæðar, eða um 39 milljarða króna. Sú upphæð er um helmingur þess sem Kaupþing fékk lánað frá Seðlabankanum tveimur dögum áður en bankinn féll. Tilboðinu sem var tekið var í FIH var þó það eina sem fól í sér einhverskonar staðgreiðslu. Því kom ekki til greina að taka öðrum tilboðum.

Til viðbótar við staðgreiðsluna veitti Seðlabankinn síðan nýjum eigendum seljendalán upp á 62 milljarða króna. Það er með gjalddaga þann 31. desember 2014 og á greiðsla að eiga sér stað í síðasta lagi þremur mánuðum síðar. Höfuðstóll lánsins er tengdur við danska neysluvísitölu og ber ekki vexti.

Hann mun því lækka sem nemur því raunverulega tapi sem FIH verður fyrir á næstu fjórum árum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Dæmi um hluti sem gætu valdið slíku tapi er endanleg afskrift lána. Viðskiptablaðið hefur vitneskju um að spá stjórnenda FIH geri ráð fyrir að afskrifa þurfi rúmlega 30 milljarða íslenskra króna (1,5 milljarður danskra króna) á tímabilinu. _____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .