Endurheimtur almennra kröfuhafa í þrotabú Spron verða um 6,7% samkvæmt skýrslu slitastjórnar sem lögð var fram kröfuhafafundi nýlega. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu segir að bókfært verð eigna félagsins sé um 106 milljarðar króna og heildarkröfur um 200 milljarðar og þar er forgangskrafa Arion banka vegna innlána sem tekin voru yfir rúmir 77 milljarðar. Sú krafa verður greidd að fullu og er stefnt að því að greiða hana árið fyrir árslok 2014.

Dugi eignir ekki fyrir kröfu Arion banka kemur til kasta hins opinbera að bæta bankanum skaðann en ríkisábyrgð gildir á skuldabréfi því sem Arion fékk gegn því að taka innlánin yfir. Fyrir vikið er skuldabréfið í bókum bankans fært sem áhættulaus eign og segir Morgunblaðið það vera með samþykki FME. Ekki er enn ljóst hvert endanlegt virði eigna þrotabúsins er.

Stór hluti útlánasafns Spron tengist fasteignaviðskiptum og er um 77% þess með veði í fasteignum. Margar þeirra eru þó yfirveðsettar og ræðst endanlegt virði krafnanna því af þróun á fasteignamarkaði á næstu árum. Mat slitastjórnar er að fasteignamarkaður hafi rétt úr kútnum og hann muni styrkjast á næstunni.