Uber , snjallsímaforritið sem gerir hverjum sem er kleift að verða leigubílstjóri, hefur nú endurhannað merki sitt. Netheimar hafa brugðist við, en almenningsálit á nýja merkinu er almennt neikvætt.

Fyrra merki Uber hafði verið fremur litlaust U, hvort sem þú varst bílstjóri eða almennur notandi. Nú hefur merkjum forritsins verið skipt upp eftir því hvort þú keyrir eða lætur keyra þig, og það er litamunur á merkinu eftir því í hvaða landi þú ert staðsettur.

Í myndinni með fréttinni má sjá nýju merkin tvö. Það til hægri er útlit forrits þeirra sem nota forritið til að fá far, meðan það til vinstri er útlit fyrir þá sem vinna við að keyra fólk um þvers og kruss fyrir Uber.

Viðbrögð almennings, og sérlega á Twitter , hafa verið tiltölulega neikvæð. Sumir hafa talað um að útlitið - sem Uber byggði á hugmyndum um tölvubita og frumeindir - sé of vélrænt og fæli fólk frá fremur en að virka hlýtt og móttækilegt.