Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, er efins um þörf fyrir lagabreytingu sem nú er til meðferðar á Alþingi þar sem hækka á lágmarksiðngjald í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5%. Hugsa þurfi frumvarpið, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram í apríl , upp á nýtt. „Það er umhugsunarefni hvort ekki væri ráð að draga frumvarpið til baka og móta nýjar tillögur í tengslum við gerð grænbókar og heildarendurskoðunar lífeyriskerfisins sem hefur verið boðuð,“ segir Gunnar í grein í Morgunblaðinu í dag.

Gunnar bendir á að hækkunin úr 12% í 15,5% nemi í reynd 29%. Þá geta einstaklingar ráðstafað hækkuninni í nýtt lífeyrissparnaðarform sem nefnt hefur verið tilgreind séreign. „Verði frumvarpið að lögum munu þau hafa áhrif á persónuleg fjármál allra landsmanna og auka flækjustig í lífeyriskerfinu til muna,“ segir Gunnar. Þá byggi frumvarpið að mestu á tillögum og samráði við aðila vinnumarkaðarins sem tengjast nokkrum lífeyrissjóðum landsins, sem samtals vega minna en helming af heildareignum lífeyrissjóða.

„Ekkert hefur komið fram um þörfina fyrir einstaklinga á að lögfesta þessa hækkun. Með útreikningum má sýna fram á að í mörgum tilvikum getur þessi hækkun lágmarksiðgjalds leitt til þess að eftirlaun í framtíðinni verði rífleg og jafnvel meiri en laun ef viðbótarlífeyrissparnaður er tekinn með í reikninginn,“ bendir hann á. Því séu líkur á í einhverjum tilfellum að einstaklingar geti hækkað í launum við að fara á eftirlaun vegna þess hve háum fjárhæðum þeir hafi safnað í lífeyrisgreiðslur yfir starfsævina.

Frumvarpið á rætur sínar í viðleitni aðila vinnumarkaðar til að jafna lífeyrisgreiðslur á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. „Tillagan er málefnaleg en markmiðið næst ekki. Ójafnræði verður á milli þeirra sem greiða 15,5% af launum í samtryggingu og þeirra sem velja að greiða 3,5% í tilgreinda séreign og 12% í samtryggingu. Þá munu lífeyrissjóðir áfram geta boðið séreign sem er laus frá 60 ára aldri sem hluta af lágmarksiðgjaldi. Þeir sem velja þennan kost geta þá tekið út séreign áður en þeir hefja töku lífeyris úr almannatryggingum,“ segir Gunnar í greininni.

Hann veltir því upp hvort ekki þurfi að leggja fram nýtt frumvarp samhliða heildarendurskoðun á lífeyriskerfinu. „Markmið slíkra tillagna ætti að vera að stuðla að því að skyldusparnaður taki mið af raunverulegri sparnaðarþörf einstaklinga, tryggja dreifða ákvarðanatöku um ávöxtun lífeyrissparnaðar og einfalda lífeyriskerfið,“ segir Gunnar.

Með hækkun lágmarksiðgjalds sé um leið verið að skylda þúsundir sjálfstætt starfandi einstaklinga til að greiða 15,5% iðgjald í staðinn 12%. „Erfitt er að sjá rök fyrir þessari hækkun sem er íþyngjandi fyrir einstaklinga með rekstur," segir Gunnar.

Með þessu hækki lágmarksiðgjald í tæplega 1/6 af launum til fárra einsleitra lífeyrissjóða. Með viðbótarlífeyrissparnaði nemi lífeyrissparnaður samtals um 1/5 af launum og um leið sé svigrúm fyrir annan sparnað er takmarkað.