Endurhverfi lánamarkaðurinn í evrópu skrapp saman í fyrra frá árinu á undan og segir í frétt Financial Times að það sé til marks um að varkárari lánastofnanir forðist það að lána hver öðrum fé og reiði sig frekar á ódýrt fjármagn frá seðlabönkum í sambandinu.

Í desember var heildarvirði útistandandi endurhverfra viðskiptasamninga um 5.600 milljarðar evra, en ári áður var þessi tala um 6.200 milljarðar. Þessi viðskipti fara venjulega þannig fram að bankar fá lán frá peningamarkaðssjóðum eða öðrum fjárfestum og láta í staðinn skuldabréf að veði.

Richart Comotto, fræðimaður við Reading University og höfundur skýrslunnar þar sem þetta kemur fram, segir að þessi þróun sé þvert á vilja ríkisstjórna í Evrópusambandinu en þær vilja gjarnan venja banka af seðlabankajúgrinu. Síðast þegar endurhverfi markaðurinn skrapp svona saman milli ára benti það til þess að markaðurinn væri að staðna og væri til merkis um að lausafjárstaða bankakerfisins væri að versna þrátt fyrir meiri bjartsýni í öðrum geirum.