Fyrirhuguð endurkaup Arion banka á bréfum í sér féllu vel í kramið hjá markaðsaðilum en bankinn var annað tveggja félaga á aðalmarkaði sem hækkaði mest í viðskiptum dagsins. Viðskipti dagsins leiddu að meginstefnu til hækkunar á gengi skráðra félaga en OMXI10 vísitalan hækkaði um 1,57% og komst hún aftur yfir 3.300 stig.

Mestu hækkun dagsins mátti aftur á móti finna á First North markaðnum en þar nægðu fjögur viðskipti, fyrir samtals 888 þúsund krónur, til að ýta Solid Clouds upp um 7,78%. Þá hækkaði Play um 0,36% í 150 milljóna veltu.

Hitt flugfélagið, það er Icelandair, hækkaði um 3,68% í viðskiptum dagsins en þar var á ferð mesta hækkunin á aðalmarkaði. Litlu munaði á félaginu og Arion banka en sá síðarnefndi hækkaði um 3,65%. Umfang viðskipta með bréf í bankanum voru samanlagt 1.617 milljón krónur í dag. Origo var þriðja félagið sem náði meira en þriggja prósenta hækkun í dag.

Engin önnur félög náðu að rjúfa 2% múrinn í dag en þrjú hækkuðu um ríflega prósent. Það voru Brim með 1,46%, Marel um 1,17% í 918 milljóna viðskiptum og VÍS um 1,07% í 600 milljóna viðskiptum. Hækkun sjö félaga var á bilinu 0,4-0,9% en þau voru, frá mestu hækkun til þeirrar minnstu, Eik, Kvika, Reginn, Reitir, Iceland Seafood, Sýn og Eimskip.

Mesta lækkun dagsins var hjá Símanum eða 1,82% í 298 milljóna viðskiptum. Þar á eftir kom Síldarvinnslan um 1,2% og að endingu lækkaði Skeljungur um 0,72%. Önnur félög á aðalmarkaði stóðu í stað í viðskiptum dagsins.

Alls voru skráð 622 viðskipti á aðalmarkaði í dag, flest með bréf Arion banka eða 85 talsins, og var samanlögð velta 6 milljarðar króna. Velta á skuldabréfamarkaði var fjórðungur af því og viðskipti nítján talsins.