Bankastarfsmenn hafa varað við því að endurkaupasamningar (e.repo) geti valdið efnahagslegum óstöðugleika innan Evrópu, ef ekki verði aðhafst um hvernig slík viðskipti fara fram á milli landa, segir í frétt Financial Times.

Endurkaupasamningar eru í raun lán sem tekið er með því að selja verðbréf gegn loforði um að kaupa þau aftur síðar á hærra gengi. Mikil aukning hefur verið á endurkaupasamningum á þessu ári. Talið er að áhrifin séu af slíkum toga að þau dragi úr rafrænum viðskiptum og þvingi banka til að gera áhættusama tvíhliða samninga.

Evrópski seðlabankinn mun ræða við fjármálafyrirtæki í vikunni um málið og kynna lausn sem felst í því að seðlabankinn muni reka samhæft kerfi sem hafi umsjón með skiptasamningum (e. settlement). Kerfið mun kallast Target2Securities, eða T2S. Kerfið gæti haft veruleg áhrif á fjölda fjármálastofnanna í Evrópu, þar sem flestir bankar og aðrar stofnanir treysta á endurkaupasamninga til fjármögnunar og lánveitinga. T2S hefur valdið talsverðum áhyggjum hjá fyrirtækjum sem veita skiptasamningaþjónustu, þar sem kerfið gæti haft áhrif á þjónustu og hagnað þeirra.

Forstjóri Euroclear, sem er stærsta fyrirtækið innan Evrópusambandsins sem veitir skiptasamningaþjónustu, segir að fyrirtækið geri sér grein fyrir forsendum þess að slíkt kerfi sé sett á, en að efasemdir séu um hvort seðlabankinn geti staðið við gefin loforð.

En bankastarfsmenn sem starfa með endurkaupasamninga segja að nauðsynlegt sé að samþætta reglur milli landa og að ólíklegt sé að það sé hægt nema með aðkomu evrópska seðlabankans. Þrátt fyrir að einn gjaldmiðill sé innan Evrópusambandsins eru reglur um skiptasamninga með verðbréf ólíkar milli landa. Í Bandaríkjunum er til dæmis aðeins eitt kerfi, en í Evrópusambandinu eru yfir tuttugu og er lítil samþætting á milli sem gerir samninga milli landa tímafreka og áhættusama.