Richard Li, yngsti sonur Li Ka-Shing sem er ríkasti maður Asíu, boðaði endurkomu sína inn á tryggingamarkaðinn þegar hann keypti hluta af trygginga-armi ING í Hong Kong, Taílandi og Makaó. Li greiddi ING 2,4 milljarða dollara fyrir trygginga-arminn. ING er því einu skrefi nær því að greiða fyrir björgunaraðgerðir hollenska ríkisins.

Hvernig kaupin verða fjármögnuð hefur Li ekkert gefið út um.

Richard Li átti áður tryggingafyrirtækið Pacific Century Insurance. Hann seldi það árið 2007 og var þá talið að hann myndi hætta öllum afskiptum af tryggingamarkaðnum.

Kaupin henta ING mjög vel þar sem fyrirtækið hefur þurft að selja eignir til þess að greiða fyrir björgunaraðgerðir hollenska ríkisins en þær björgunaraðgerðir hljóða upp á um 13 milljarða dollara eða um 1600 milljarðar króna.