Franek Rozwadowski, fastafulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir ekki hægt að svara því nákvæmlega hver yrðu áhrif þess að Icesave-samningurinn yrði ekki samþykktur á Alþingi.

Það sé þó líklegt, segir hann, að það muni eitthvað tefja endurmat á efnahagsáætlun stjórnvalda og sjóðsins. Hversu mikið muni fara eftir viðbrögðum þeirra ríkja sem eru með í lánapakkanum, svo sem Norðurlandanna, og annarra ríkja sem eru aðilar að AGS.

Þannig gæti endurmatið og þar með næsta greiðsla frá sjóðnum tafist fram til loka ágúst og jafnvel lengur. Fyrirhugað er að ræða málefni Íslands á stjórnarfundi AGS í byrjun ágúst. Þess má geta að upphaflega stóð til að endurmatið færi fram í febrúar og hefur það því tafist um nokkra mánuði.

Þegar Rozwadowski er spurður hvort AGS þrýsti á Alþingi að samþykkja samninginn svarar hann: „Nei, við eigum ekki í slíku sambandi við Alþingi. Það gerir sjálft upp sinn hug." AGS hafi heldur ekki komið að gerð samningsins.

Hann segir að lykilspurningin sé hvort samningurinn sé góður fyrir Ísland. „Við höfum enga ástæðu til að ætla að þetta sé slæmur samningur."

Hann bætir því við að vissulega sé óvissa um það hve mikið af eignum Landsbankans endurheimtist upp í skuldirnar. „Það virðist þó líklegt að eignir Landsbankans muni að mestu dekka Icesave-lánin, jafnvel þótt endurheimtuhlutfallið verði fremur lágt."

Taki þrýstinginn af krónunni

Hann segir að Icesave-samningurinn hafi sína jákvæðu hliðar sem eigi eftir að styðja við hagvöxt hér á landi. Til að mynda að lánið sé til fimmtán ára og að ekki þurfi að byrja að borga af því fyrr en eftir sjö ár. „Við teljum að ríkissjóður muni geta staðið í skilum," segir hann.

Samningurinn gefi ríkisfjármálunum aukið svigrúm og taki þrýstinginn af krónunni. Hann segir að síðustu, að hvað sem öðru líði, þá auki það traust á Íslandi að samið verði um Icesave-skuldirnar.

Atkvæðavægi fer eftir stærð

Áætlun AGS og stjórvalda var samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar sjóðsins 19. nóvember. Í áætluninni fólust fyrirheit um 2,1 milljarða Bandaríkjadala lán frá sjóðnum og um viðbótarlán, allt að þremur milljörðum Bandaríkjadala frá Danmörku, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Rússlandi og Póllandi.

Lánasamningarnir við Norðurlöndin voru undirritaðir í Stokkhólmi í dag en enn þá hefur ekki verið samið við Rússland og Pólland. Lánin frá Norðurlöndunum verða innt af hendi í áföngum og í samráði við AGS.

Fyrsti hluti lánsins frá AGS, 827 milljónir Bandaríkjadala, hefur þegar verið inntur af hendi en annar hluti lánsins, um 155 milljónir, bíður enn afgreiðslu, eins og fyrr sagði. Alls á að greiða lánið frá AGS út í átta jöfnum áföngum.

180 ríki eru aðilar að sjóðnum og sitja 19 fulltrúar þeirra í stjórn. Atkvæðavægi er í samræmi við stærð þeirra. Þannig hafa Bretar og Hollendingar og önnur ríki Evrópusambandsins sterk áhrif innan sjóðsins.