Verð á matvælum sem eru flutt frá Bandaríkjunum hækkar töluvert vegna þess að endurmerkja þarf þær áður en þær eru seldar í verslunum á Íslandi. Þetta ræðst meðal annars af mismunandi kröfum um framsetningu á innihaldsupplýsingum hér á landi og í Bandaríkjunum. Áætlað er að kostnaður við að sérmerkja vörur sem fluttar voru inn frá Bandaríkjunum árið 2004 hafi numið um 116 milljónir króna að því er kemur fram í fréttabréfi SVÞ.

Árið áður var þessi kostnaður um 106 millj. kr. og hafði aukningin því orðið rúm 9% milli ára. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Ástæða þessara sér- og endurmerkinga eru mismunandi reglugerðir um innihaldslýsingar varðandi næringarinnihald matvæla. Til dæmis eru notaðar svokölluð E-númer fyrir auka- og litarefni hér á landi og í Evrópu á meðan Bandaríkjamenn nota annað kerfi. Þá er í reglugerðum Evrópusambandsins, sem gilda hér á landi, mælt fyrir um að næringarinnihald sé birt í grömmum en ekki í skömmtum líkt og gert er í Bandaríkjunum.

Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu frá Rannsóknasetri verslunarinnar. Í skýrslunni eru gerðir ýmsir fyrirvarar á því hver kostnaðurinn er nákvæmlega, en tveimur mismunandi aðferðum var beitt við að áætla hann og fengust nánast sömu niðurstöður úr báðum mælingunum. Í skýrslu Rannsóknasetursins segir að ástæða sé til að íslensk stjórnvöld þrýsti á samtök bandarískra framleiðenda um að merkja vörur sínar jafnframt í samræmi við Evrópureglur.

Því má svo bæta við, að bandarísk stjórnvöld telja evrópskar reglugerðir um vörumerkingar jaðra við viðskiptahindrun gagnvart bandarískum vörum og vilja að Evrópumenn lagi sig að þeim reglum sem gilda í Bandaríkjunum. Vonandi leysa vaxandi alþjóðleg viðskipti þetta vandamál fyrr en síðar.