Starfsleyfi Sementsverksmiðjunnar á Akranesi hefur verið endurnýjað og felur það meðal annars í sér heimildir fyrir verksmiðjuna að auka framleiðsluna að því er kemur fram í tilkynningu frá verksmiðjunni.

Að mati Skipulagsstofnunar eru breytingarnar sem felast í nýju starfsleyfi ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og eru því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í nýja starfsleyfinu eru gerðar kröfur um auknar mengunarvarnir og er Sementsverksmiðjunni heimilt að nýta „græna orku”, umhverfisvænt eldsneyti sem viðurkenndir aðilar framleiða úr niðurtættum flokkuðum efnum og flytja tilbúið til verksmiðjunnar. Þessir umhverfisvænu orkugjafar verða í lokuðu kerfi og eru ekki líklegir til að auka mengun frá verksmiðjunni segir í tilkynningu verksmiðjunnar.

Brennsla á eldsneyti, sem framleitt er úr flokkuðum úrgangi, í gjallbrennsluofni Sementsverksmiðjunnar er hagstæð fyrir umhverfið og samfélagið á Akranesi. Brennsla þess dregur úr eldsneytiskostnaði verksmiðjunnar, sem hefur aukist gríðarlega á undanförnum mánuðum.

Sementsverksmiðjan hefur í fimmtíu ár kappkostað að starfa í sátt við íbúa Akraness og umhverfið. Notkun á eldsneyti úr flokkuðum úrgangi er liður í þeirri viðleitni að gera Sementsverksmiðjuna umhverfisvænni og er í takt við metnaðarfulla umhverfisstefnu fyrirtækisins segir í tilkynningunni.