Eignasafn Seðlabanka Íslands ehf. hefur samið um sölu 834.481.001 hluta í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. („Sjóvá“), sem samsvarar 52,4% af útistandandi hlutafé. Kaupandi er SF1 sem er fagfjárfestasjóður í rekstri Stefnis hf. Stefnir hf. er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki sem rekur innlenda og alþjóðlega verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði fyrir einstaklinga og fagfjárfesta. Kaupsamningurinn er niðurstaða söluferlis sem hófst á síðasta ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Úr tilkynningu:

„Hluthafar Sjóvár hófu opið söluferli á félaginu snemma á síðasta ári, sem fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur haft umsjón með. Söluferlið hófst með auglýsingum í fjölmiðlum og var veruleg þátttaka bæði innlendra og erlendra fjárfesta í því. Viðræður voru teknar upp við hæstbjóðendur. Innan þess fjárfestahóps var fagfjárfestasjóðurinn SF1 meðal bjóðenda, og stóðu viðræður yfir fram í nóvember síðastliðinn þegar þeim var slitið af fjárfestahópnum. Eftir það endurnýjaði SF1 tilboð sitt til Eignasafns Seðlabanka Íslands og samningar tókust um kaupin.

Kaupsamningurinn sem nú hefur verið undirritaður er háður skilyrðum um tiltekin atriði, þ.á m. samþykki Fjármáleftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins, upplýsingaöflun um tiltekna þætti í rekstri félagsins og endanlega samninga um fjármögnun kaupanna. Markmið samningsaðila er að skilyrði kaupanna verði uppfyllt og afhending eignarhlutarins eigi sér stað innan fárra mánaða. Kaupandi stefnir að því að halda áfram góðum og þróttmiklum rekstri Sjóvár en stefnt er að skráningu fyrirtækisins á hlutabréfamarkað innan fárra ára.

Sjóvá er alhliða vátryggingafélag með rúmlega með 28% markaðshlutdeild og um 70 þúsund viðskiptavini.  Hjá félaginu starfa um 200 manns og er félagið með starfsemi um allt land.  Á síðasta ári var velta Sjóvá um 12 milljarðar króna.

Nánari upplýsingar um kaupin verða veittar samhliða frágangi viðskiptanna þegar umrædd skilyrði hafa verið uppfyllt.“