Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að ný bylgja í endurnýjun viðskiptahugbúnaðar sé nú að ríða yfir á heimsvísu. Það mikla stökk sem tekið var í uppfærslu viðskiptahugbúnaðar fyrir árið 2000 sé nú að endurtaka sig. Þá hafi endurnýjun verið knúin áfram af ótta við að tölvukerfi heimsins, sem höfðu innbyggða klukku sem endaði á árinu 1999, myndu hrynja þegar árið 2000 gengi í garð. Ekkert slíkt hrun átti sér þó stað, en hönnun hugbúnaðar naut mjög góðs af þessu.

Nú segir Halldór að aftur sé komið að slíkum umskiptum þar sem eldri hugbúnaður sé einfaldlega barn síns tíma. Hann segir að það megi gefa sér að hugbúnaðarlausnir hafi um 7 til 8 ára líftíma áður en þær þurfi meiriháttar endurnýjunar við. Það tímabil er nú að renna út. Þess vegna sé nú farin af stað mikil endurnýjunarbylgja hjá fyrirtækjum um allan heim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag.