Helgi Þorsteinsson ætlar að hefja útgáfu á blaði undir merki Tímans. Blaðið mun koma út í fyrsta sinn næstkomandi fimmtudag 31. janúar. Hann mun ritstýra blaðinu sjálfur fyrst um sinn að minnsta kosti. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í fréttinni kemur fram að auk Helga muni tveir blaðamenn starfa á Tímanum sem einnig mun halda úti vefsíðunni timinn.is, vefsíðan opnar 28 janúar. Til að byrja með mun blaðið koma út aðra hverja viku en stefnt er að vikulegri útgáfu. Það verður frítt og dreift á öll heimili landsins í 119.135 eintökum.

Eins og margir þekkja þá var Tíminn málgagn Framsóknarflokksins þar til það var lagt niður árið 1996. Helgi segir að blaðið sé þó ótengt Framsóknarflokknum fyrir utan að hann leigir nafnið af flokknum. Upplýst verður um meðfjárfesta Helga í blaðinu síðar.