Járnbrautaiðnaðurinn í Bandaríkjunum gæti hagnast á hækkandi olíuverði, þrátt fyrir að farmflutningar í Bandaríkjunum hafi minnkað.

Hærra bensínverð hjálpar járnbrautaflutningum að taka markaðshlutdeild af vörubílafyrirtækjum, þar sem það kostar að meðaltali þrisvar sinnum meira eldsneyti að flytja farm með vörubíl en með lest.

CSX var fyrst af stóru járnbrautafyrirtækjunum í Bandaríkjunum til að kynna afkomu sína á fyrsta ársfjórðungi, en hagnaður þess jókst um 46% á fjórðungnum, sem var vel yfir því sem spáð hafði verið.

Einnig spilar inn í aukinn innflutningur af vörum frá löndum á borð við Kína og aukin eftirspurn eftir hrávöru, svo sem kolum. Þurft hefur að leggja nýjar járnbrautir til að ráða við þá auknu umferð sem þessu fylgir.

Samkvæmt frétt Reuters hafa sumir kallað þessa heppni endurreisn járnbrautariðnaðarins (e. rail-renaissance).