Íslensk stjórnvöld stóðu frammi fyrir ótrúlegum og áður óþekktum aðstæðum í október 2008. Gripið var til þess ráðs að setja neyðarlög í landinu, skipta föllnum bönkum upp í nýja og gamla og skilja erlendar eignir og skuldbindingar eftir í þeim gömlu. Hinir nýju voru hins vegar endurreistir með nýjan efnahagsreikning og allar innlendar innstæður færðar inn í þá.

Gagnrýnisraddir á aðgerðir ríkisvaldsins hafa verið þó nokkrar. Þær hafa helst snúist um að aðrar, og hefðbundnari leiðir, hefðu verið færar við þær aðstæður sem sköpuðust. Í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankanna, sem Þorsteinn Þorsteinsson skrifaði og var kynnt í ríkisstjórn í lok mars, er fjallað um þá valkosti sem hafa verið helst nefndir af gagnrýnisröddunum.

5. Annað hefði leitt til allsherjarhruns

Sú leið sem íslensk stjórnvöld ákváðu á endanum að fara til að bregðast við falli Kaupþings, Landsbankans og Glitnis var að setja neyðarlög 6. október 2008. Lögin veittu Fjármálaeftirlitinu (FME) áður óþekktar heimildir til að skipta föllnum bönkum upp í nýja banka, utan um innlendar innstæður og eignir, og gamla banka, utan um erlenda starfsemi þeirra. Neyðarlögin breyttu líka röð kröfuhafa með þeim hætti að innstæðueigendur voru settir í forgang. Til viðbótar tryggði ríkisstjórn Íslands allar innlendar innstæður að fullu með yfirlýsingu þess efnis. Með þessu móti voru búnir til starfhæfir nýir bankar sem héldu greiðslumiðlun gangandi og komu í veg fyrir allsherjarhrun íslensks efnahagskerfis. Ríkið skuldbatt sig síðan til að leggja nýju bönkunum til það eigið fé sem þeir þurftu til að vera starfhæfir.

Afar víðtækar heimildir

Til viðbótar voru ákvæði í neyðarlögunum sem veittu fjármálaráðherra heimild til að leggja sparisjóðum til stofnfé, heimild til Íbúðalánasjóðs til að yfirtaka húsnæðislán fjármálafyrirtækja og nánari skilgreiningar og breytingar á skyldum og stöðu Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og rétthæð krafna hans.

Í skýrslunni segir að „með neyðarlögunum voru FME veittar afar víðtækar heimildir til að grípa inn í rekstur og valdakerfi fjármálafyrirtækjanna. Þess var skammt að bíða að nýta þurfti þær heimildir. [...] Beiðnir bárust frá Landsbankanum og Glitni 7.október 2008 og frá Kaupþingi 9. október 2008. FME ákvað að verða við beiðnunum og yfirtók völd stjórnar og hluthafafunda í bönkunum þremur og setti stjórnir þeirra af“.

Skipaðar skilanefndir

Yfir gömlu bankana voru skipaðar skilanefndir sem fengu fulla umsjón með meðferð allra eigna sem skildar voru eftir í gömlu bönkunum. Þeim var einnig falið að fara eftir og framkvæma allar ákvarðanir sem FME tók á grundvelli neyðarlaganna. Það sem eftir sat hjá þeim var rekstur og eignir í erlendum útibúum og dótturfélögum, sem höfðu aðallega verið fjármagnaðir með útgáfu skuldabréfa og með erlendum innstæðum, og það af innlendum eignum sem ekki var fært yfir í nýju bankana á grundvelli ákvörðunar FME. Þar var aðallega um að ræða stór útlán, meðal annars til margra stórra eigenda bankanna þriggja, sem skilgreind höfðu verið í mikilli tapsáhættu. Auk þess voru allar skuldir aðrar en innlendar innstæður og allir afleiðusamningar skildir eftir í gömlu bönkunum. Allar eignir þeirra fengu vernd gegn skuldheimtumönnum og sett voru ákvæði í lög til að tryggja skipulega slitameðferð.

Eini raunhæfi kosturinn

Í skýrslu fjármálaráðherra er komist að þeirri niðurstöðu að eini raunhæfi kosturinn fyrir íslensk stjórnvöld í þeirri stöðu sem upp var komin haustið 2008 hafi verið að stofna nýja innlenda banka og færa innlendar innstæður og eignir til þeirra. Með þessum samhæfðu aðgerðum „tókst að koma í veg fyrir áhlaup á gömlu og nýju bankana og grundvöllur var lagður að endurreisn bankastarfsemi á Íslandi á rústum þeirrar gömlu“. Aðrar lausnir sem skoðaðar hafi verið, og eru tíundaðar hér til hliðar, voru „taldar leiða til hruns á öllu efnahagskerfinu“.