„Það verður alltaf áhætta þegar höftin verða afnumin. Erlend lánshæfismatsfyrirtæki hafa áhyggjur af því að við fötum fram með glannaskap,“ Már Guðmundsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar bankans. Hann varaði við því á fundi með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis að afnema gjaldeyrishöft með of miklum hraða. Útflæði á erlendum gjaldeyri geti haft neikvæð áhrif á gengi krónunnar og veikt það frekar. Draga verði úr áhættunni hægt og bítandi. Fólk verði að vera þolinmótt. Þetta komi allt þótt hægt gangi, að hans sögn.

Fundinn sitja með Má þeir Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri og Gylfi Zoega sem sæti á í peningastefnunefnd.

Nokkuð hefur verið rætt  um gengisveikingu krónunnar, vaxtabreytingar og sveiflur í hagkerfinu.

„Í stuttu máli snýst þetta um að hvort við viljum taka mikla dýfu núna eða ekki,“ sagði Már og líkti endurreisnarferlinu, þar á meðal gengissveiflum, við það þegar fólk venur sig af eiturlyfjum. Hann sagði það merki um glannaskap að ætla sér að gera það á einum degi.

Tryggvi Þór Herbertsson benti hins vegar á að þegar maður ætli að hætta á eiturlyfjum þá sé best að hætta því snögglega. „Maður hættir ekki smám saman á eiturlyfjum.“

Már svaraði því á móti, að í efnahagsmálum sé ekki alltaf best að taka kúrinn beint. „Við erum alltaf að reyna að jafna út áhrifin. Við getum líka hætt allri hagstjórn og ákveðið að taka allt inn. Þá verður allt annað hvort í sjöunda himni eða algjört helvíti,“ sagði hann en bætti við að eiturlyfjalíkingin sé ekki góð.