Fjármálakerfi landsins er of stórt, að mati Bankasýslu ríkisins og Seðlabanka Íslands. Þessi álit hafa birst í skýrslum beggja stofnana, nú síðast í riti Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika þar sem nefnt er sérstaklega að sameining fjármálastofnana komi til greina sem hagræðingaraðgerð.

Þrátt fyrir að þessi álit liggi fyrir þá er unnið að endurreisn sparisjóðakerfisins, með ríkið sem stærsta eigenda stofnfjár. Kröfur margra sparisjóða á ríkið má rekja til endurhverfra viðskipta við Seðlabanka Íslands þar sem sparisjóðirnir, í gegnum Sparisjóðabankann, hjálpuðu föllnu bönkunum að útvega sér laust fé úr Seðlabankanum.

Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sparisjóða, segir að vissulega þurfi að hagræða innan bankakerfisins en það verði að gera það eftir að endurreisn fjármálakerfisins lýkur. "Endurreisn bankakerfisins og fjármálakerfisins í heild er ekki lokið. Hagræðingin innan kerfisins verður að mínum dómi að eiga sér stað þegar efnahagsreikningur allra banka og sparisjóða er stöðugur og full ljóst hvernig hann lítur út, með tilliti til eigna og skulda. Allar ákvarðanir verða að vera teknar á grundvelli réttra og traustra gagna, ekki síst hagræðing innan kerfisins."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð á vb.is.