Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ákveðið að endurskipa í hæfnisnefnd sem átti að meta hæfi umsækjenda í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu viðskipta-, nýsköpunar- og ferðamála.

Í janúar sl. var skipuð nefnd sem átti að meta hæfi umsækjenda í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu viðskipta-, nýsköpunar- og ferðamála. Nefndin var skipuð áður en kunnugt var hverjir sóttu um starfið, en alls bárust 38 umsóknir.

Þegar umsóknir lágu fyrir kom í ljós að einn nefndarmanna taldi að vegna persónulegra tengsla við tvo umsækjendur að ekki væri rétt að hann tæki þátt í hæfnismati viðkomandi einstaklinga. Annar nefndarmaður komst að sömu niðurstöðu vegna óbeinna persónulegra tengsla við einn umsækjanda. Í engum tilfellum var um að ræða skýlausar vanhæfisástæður í skilningi stjórnsýslulaga heldur mótaðist afstaða nefndarmanna af ítrustu varfærnissjónarmiðum segir í tilkynningu um málið.

Umræddir nefndarmenn tóku því ekki þátt í viðtölum við þá umsækjendur sem um ræðir. Í þeim tilvikum sem að nefndarmaður vék sæti þá fyllti starfsmaður nefndarinnar, sem hefur áratuga reynslu við mannaráðningar, skarð hans sem nefndarmaður ad hoc. Einn umsækjendi kvartaði þó yfir ferlinu, en kvörtunin byggði á því að þetta væri heildstæt ferli sem lýkur með því að einn einstaklingur er ráðinn; þá þurfi allir nefndarmenn að fjalla um alla umsækjendur.

Ráðuneytið taldi því rétt að til að ekki skapaðist óvissa eða ágreiningur um ráðningarferlið þá væri rétt að núverandi hæfnisnefnd héldi ekki lengra í störfum sínum. Var því ákveðið að enduskipa í nefndina og hefja matsferlið að nýju.