Kröfuhöfum Byrs hefur borist tilboð frá íslenska ríkinu sem þeir verða að samþykkja eigi ríkið að leggja sparisjóðnum til þá tæpa ellefu milljarða króna sem hann hefur óskað eftir.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins felur tilboðið í sér að kröfuhafar Byrs muni fá 42% endurheimtur í fyllingu tímans en að stofnfé verði skrifað niður um 96%.

Stór hluti innlendra kröfuhafa hefur þegar samþykkt tilboðið en það stendur mjög í erlendum fjármálafyrirtækjum sem eiga kröfur á Byr. Vonast hafði verið til að hægt væri að klára málið síðastliðinn föstudag en því var enn og aftur frestað.

Endurskipulagning íslenska sparisjóðakerfisins hefur staðið yfir nánast frá bankahruni, en hefur dregist mjög á langinn vegna erfiðleika við að klára mál tengdum Byr og Sparisjóði Keflavíkur (SpKef). Þeir tveir sjóðir eiga að mynda hryggjarstykki í hinu nýja sparisjóðakerfi.

Til að sjóðirnir geti uppfyllt kröfur um eigið fé er nauðsynlegt að ríkið leggi þeim til eigið fé, en það skuldbatt sig til þess í neyðarlögunum. Í kjölfarið verður ríkið langstærsti eigandi sjóðanna.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .