Um 4,8 milljarða króna skuld Icelandair Group við lánveitendur verður breytt í hlutafé og ákveðinn hluti af rekstri samstæðunnar verður tekinn út úr henni og færður í sérstakt félag sem verður í eigu innlendra lánveitenda.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group en félagið og stærstu lánveitendur þess, Íslandsbanki og Glitnir banki hf., hafa komist að samkomulagi um með hvaða hætti stefnt skuli að því að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu Icelandair Group.

Fyrir utan þau atriði sem talin eru upp hér að ofan er gert ráð fyrir að fjárfestum og almenningi verði gefinn kostur á að leggja félaginu til nýtt hlutafé í hlutafjárútboðum á árinu sem fara munu fram í tveimur hlutum. Fyrri hluti verður lokað útboð meðal afmarkaðs hóps fagfjárfesta. Í framhaldi af því er stefnt að almennu hlutafjárútboði en samkvæmt tilkynningunni er það vilji Icelandair Group, Íslandsbanka og Glitnis að tryggja aðkomu breiðs hóps fjárfesta, jafnt fagfjárfesta og almennra fjárfesta. Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur verið falið að að hafa umsjón með hlutafjárútboðunum.

Sem fyrr segir verða skuldir að fjárhæð 7,7 milljarðar króna ásamt jafnvirði eigna færðar í sérstakt eignarhaldsfélag sem verður í eigu innlendra lánveitenda. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins verður hlutur Icelandair Group í tékkneska flugfélaginu Travel Servic færður í sama félag ásamt fraktflugfélaginu Bláfugl (e. Bluebird).

Eftir í Icelandair Group verða þær eignir sem stjórn samstæðunnar hefur skilgreint sem kjarnastarfsemi: Icelandair, Flugfélag Íslands, Iceland Travel (Vita), Icelandair Cargo, Icelandair Hotels, Icelandair Ground Services, Loftleiðir-Icelandic og Fjárvakur auk lettneska leiguflugfélagsins SmartLynx, sem stefnt er að fari út úr samstæðunni á árinu.

Í raun má þá segja að rekstur samstæðunnar verður samkvæmt þessu svipaður og hann var hjá gömlu Flugleiðum.

Þá kemur fram að í endurskipulagningunni er meðal annars gert ráð fyrir aðkomu annarra lánveitenda auk leigusala flugvéla sem dótturfélög Icelandair Group nýta í rekstri sínum. Leita þarf eftir samþykki hlutahafafundar samstæðunnar fyrir ákveðnum þáttum endurskipulagningarinnar, auk endanlegs samþykkis lánveitenda. Engar skuldir samstæðunnar verða afskrifaðar.

„Daglegur rekstur samstæðunnar hefur gengið vel undanfarin misseri, en há fjármagnsgjöld og miklar skammtímaskuldir hafa haft neikvæð áhrif á stöðu félagsins,“ segir í tilkynningunni.

„Stjórnendur Icelandair Group hafa undanfarna mánuði unnið náið með lánveitendum að fjárhagslegri endurskipulagningu til að treysta grunn félagsins. Icelandair Group hefur auk þess haft  sér til ráðgjafar erlendan banka með sérþekkingu á sviði flugrekstrar.“

Loks kemur fram að samkvæmt bráðabirgðarekstrarreikningi nam heildarvelta félagsins á árinu 2009 80,3 milljörðum króna af áframhaldandi starfsemi. Þar af nam velta kjarnastarfsemi 75,2 milljörðum króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 8,1 milljarði króna og af kjarnastarfsemi 7,3 milljörðum króna. Með fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins verður áætluð velta ársins 2010 78,2 milljarðar króna af kjarnastarfsemi og áætluð EBITDA 7,6 milljarðar króna.