Endurskipulagning Nýja Landsbankans (NBI) mun ljúka í vikunni og niðurstaða hennar verður kynnt á miðvikudag, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Niðurstaðan byggir á samkomulagi stjórnvalda við skilanefnd Landsbankans og NBI frá 12. október síðastliðnum.

Samninganefnd stjórnvalda, undir forystu Þorsteins Þorsteinssonar, var í Lundúnum fyrr í desembermánuði þar sem hún átti í viðræðum við fulltrúa kröfuhafa Landsbankans um niðurstöðuna. Samkvæmt henni mun íslenska ríkið eiga að minnsta kosti 80 prósent hlut í bankanum en kröfuhöfum bankans stóð til boða að eignast allt að 20 prósent sem skilanefnd hans myndi halda á fyrir hönd þeirra.

Virði þeirra hlutabréfa er áætlað um 28 milljarðar króna en auk þess á NBI að gefa út skuldabréf til tíu ára upp á 260 milljarða króna til gamla bankans.

Ákvörðunin um lok endurskipulagningarinnar er þó tekin einhliða af íslenskum aðilum þar sem ljóst þykir að mýmargir kröfuhafar Landsbankans ætli að láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum.

Eigur Landsbankans duga ekki fyrir forgangskröfum

Samkvæmt mati skilanefndar Landsbankans munu eigur hans ekki duga fyrir forgangskröfum, sem að mestu eru Icesave-skuld Íslendinga við Hollendinga og Breta. Því þurfa lánveitendur og skuldabréfaeigendur sem eiga kröfur á Landsbankann að afskrifa kröfur sínar að mestu leyti. Það endurspeglast í því að verð á skuldabréfum útgefnum af gamla Landsbankanum er um 4,75 prósent af nafnvirði um þessar mundir á sama tíma og það er 21-24 prósent af nafnvirði hjá Glitni og Kaupþingi.

Eina mögulega endurheimt slíkra kröfuhafa sem ríkið hefur boðið upp á er hlutdeild í þeim 20 prósenta eignarhlut í NBI. Ljóst er að margir kröfuhafanna eru allt annað en ánægðir með þessar málalyktir og hafa höfðað mál fyrir dómstólum til að fá neyðarlögunum frá því í október 2008 hnekkt. Tækist það myndu innstæður ekki lengur vera forgangskröfur í bú og kröfuhafarnir gætu fengið mun hærri endurheimtur.

Fyrsta dómsmálið gegn neyðarlögunum tekið fyrir í dag

Fyrsta slíka málið verður tekið fyrir í dag. Þar stefnir þýski bankinn DekaBank fjármálaráðuneytinu fyrir hönd íslenska ríkisins. Þýski bankinn vill að íslenska ríkið greiði sér 338 milljónir evra, um 62 milljarða króna, í skaðabætur vegna setningu neyðarlaganna. Samkvæmt kröfulista í bú Landsbankans gerir DekaBank um 70 milljarða króna kröfu á hann.

Í samkomulaginu frá því í október kemur fram að hlutafé NBI eigi að vera 155 milljarðar króna og að ríkissjóður leggi bankanum til 127 milljarða króna af því í formi ríkisskuldabréfa. Það er langstærsta framlag ríkisins til einhvers af nýju bönkunum en kröfuhafar bæði Kaupþings og Glitnis hafa þegar samþykkt að eignast Arion og Íslandsbanka að stærstu leyti. Það þýðir að framlag ríkisins til þeirra minnkaði til muna.