„Þetta er ein af stóru aðgerðunum sem tengist stefnumótuninni okkar, það er að endurskipuleggja framboð af þjónustu og upplifun á jarðhæð Hörpu og í tengdum rýmum,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu í samtali við Viðskiptablaðið.

Nú auglýsir Harpa eftir hugmyndum og tillögum að fersku framboði á upplifun, - veitingaþjónustu og verslun og segir Svanhildur að tilefnið sé liður í undirbúningi fyrir tíu ára afmæli Hörpu sem er á næsta ári.

„Við viljum tryggða það að þjónustan á jarðhæð Hörpu laði að sér heimamenn, alveg óháð því hvort þú Íslendingar séu að koma á viðburði í húsinu eða ekki,“ segir Svanhildur aðspurð um markmið breytinganna.

„Við finnum í þessu ástandi að jarðhæð hússins hefur þróast í að vera móttökustaður fyrir erlenda ferðamenn. Þjónustan þar hefur einblínt á þann stóra og mikilvæga markhóp en þegar við horfum til framtíðar viljum við auðvitað taka mjög vel á móti öllum gestum.“

Bæði kallar Harpa eftir hugmyndum frá gestum hússins en einnig hvetja þau áhugasama rekstraraðila til að leggja fram tillögur og hugmyndir.

„Við viljum koma fersk og öflug inn í stórafmælið. Það eru miklar breytingar að eiga sér stað allt í kringum Hörpu; bæði nýja hótelið, íbúðabyggðin og stórir vinnustaðir. Allt þetta býr til nýtt samhengi fyrir Hörpu og erum við að horfa til þess,“ segir Svanhildur og bætir við að hún vilji virkja húsið enn frekar.