Síðasta ár var að sumu leyti erfitt fyrir CCP þrátt fyrir að hagnaður hafi aukist töluvert milli ára. Fyrirtækið hefur lengi verið að vinna að tveimur nýjum leikjum, DUST 514 og World of Darkness, og hefur þróunin nánast að öllu leyti verið fjármögnuð með tekjum af flaggskipi fyr­ irtækisins, tölvuleiknum EVE Online. Um mitt ár gerðist það svo að uppfærsla á EVE féll ekki í kramið hjá spilurum og þeim fækkaði tímabundið um 7% og það hafði tímabundin neikvæð áhrif á tekjur fyrirtækisins. Var ákvörðun tekin um að leggja megináherslu á að klára DUST og bæta uppfærslur á EVE en hægja á ferðinni með World of Darkness. Þessu fylgdu uppsagnir og endurskipulagn­ ing hjá félaginu.

Ársreikningur CCP fyrir síðasta ár og bráðabirgðatölur fyrir fyrsta ársfjórðung bera þess merki að þessar aðgerðir hafi tekist. Velta jókst úr 57,4 milljónum dala í 63,2 milljónir, andvirði um 8,1 milljarðs króna, og EBITDA hlutfallið hækk­aði úr 25,2% í 27,9%. Hagnaður eftir skatta nam 8,7 milljónum dala, eða um 1,1 milljarði íslenskra króna, samanborið við 5,4 milljónir dala árið 2010. Þrátt fyrir áðurnefnd vandræði fjölgaði spilurum í fyrra og eru um þessar mundir mjög nálægt sögulegu hámarki, sem er ríflega 370.000 á vestræna vefþjóninum. Árin 2010 og 2011 gekk CCP nokkuð á laust fé, sem aukið var með hlutafjáraukningu árið 2009. Reksturinn eftir áramót er þó nettó í plús hvað fjárstreymi varðar. Laust fé í lok árs 2011 nam 3,7 milljónum dala en var í lok fyrsta ársfjórðungs um sjö milljónir dala.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.