Sú ákvörðun tölvuleikjaframleiðandans CCP um að einbeita sér meira en áður að fjölspilaratölvuleiknum EVE Online og hægja á þróun á leiknum World of Darkness er að einhverju leyti tengd þeim óróa sem hefur verið meðal spilara EVE Online síðustu mánuði, að sögn Þorsteins Högna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá fyrirtækinu.

CCP greindi frá því fyrr í dag að ákveðið hafi verið að segja upp 114 starfsmönnum í Atlanta og Reykjavík. Þar af verða 34 uppsagnir hér á landi og 80 í Atlanta. „Áskrifendur EVE Online eru núna mun fleiri en þeir voru fyrir ári, en það verður að viðurkennast að við höfum orðið vör við ákveðna dýfu í fjölda áskrifenda í haust. Áskrifendafjöldinn tekur reyndar alltaf ákveðna dýfu á þessum árstíma, en við töldum rétt að taka þessa þróun alvarlega,“ segir Þorsteinn.

Hilmar Veigar Pétursson CCP
Hilmar Veigar Pétursson CCP
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Hilmar svarar spilurum

Óánægja spilara hefur einkum snúið að því að margir þeirra hafa það á tilfinningunni að EVE hafi verið afskiptur innan CCP og þar hafi öll áherslan verið lögð á þróun á nýju leikjunum tveimur Dust 514 og World of Darkness. Þá hafi þær breytingar, sem gerðar hafa verið á EVE, ekki verið í samræmi við óskir spilaranna. Það á einkum við um viðbót, þar sem opnuð var sérstök verslun innan leiksins þar sem spilarar gátu keypt föt á persónur sínar fyrir raunverulega peninga. Mörgum þótti hlutirnir í versluninni allt of dýrir.

Segja má að Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP, hafi tekið undir þessa gagnrýni í opnu bréfi sem hann sendi spilurum EVE í upphafi mánaðarins. Þar segir hann að síðustu viðbætur við EVE hafi ekki verið í samræmi við þær væntingar sem búið var að ýta undir meðal spilara og þá hafi CCP ekki staðið sig nægilega vel í því að koma til skila áætlunum sínum um áðurnefnda verslun innan leiksins.

Sambandið hefur batnað

„Allt frá því að óánægjan kom upp meðal spilara höfum við unnið sleitulaust að því að koma til móts við þá og bæta samskiptin milli fyrirtækis og viðskiptavina. Bréf Hilmars var einn mikilvægur þáttur í þeirri vinnu og hefur afstaða spilara til EVE og CCP batnað mjög undanfarið,“ segir Þorsteinn. Hann sagði að ekki væri rétt að fjalla nánar um það hverjum hefði verið sagt upp hér á landi að svo stöddu. Ef hins vegar gert er ráð fyrir því að hlutföll í uppsögnunum séu í samræmi við hlutföll meðal starfsmanna CCP á Íslandi má ætla að um einn þriðji hluti þessara 34 starfsmanna sé erlendur og tveir þriðju séu íslenskir.