Icelandic Group hefur lokið sölu á eignum í Bandaríkjunum og tengdri innkaupa- og framleiðslustarfsemi í Asíu til kanadíska sjávarútvegsfyrirtækisins High Liner Foods.

Endanlegt heildarsöluverð nam 232,7 milljónum dala, 28,4 milljörðum króna. Til viðbótar nam endurmat veltufjármuna 15,2 milljónum dala, 1,8 milljörðum króna.

Framtakssjóður Íslands á Icelandic Group. Salan markar ákveðin tímamót hjá fyrirtækinu. Sjóðurinn hefur selt eignir bæði í Bandaríkjunum, Asíu og á meginlandi Evrópu fyrir 41 milljarð króna. Eftir því sem næst verður komist er ekki á teikniborðinu að selja fleiri eignir.

Með sölunni er fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins lokið, að því er segir í tilkynningu.