Fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Norðfjarðar er lokið. Samningur þess efnis við Seðlabanka Íslands hefur verið undirritaður og öll skilyrði hans verið uppfyllt. Samningurinn var undirritaður þann 27. júlí síðastliðinn.

Í fréttatilkynningu frá Sparisjóði Norðfjarðar segir að sjóðurinn hafi orðið fyrir eignatjóni í fjármálahruninu. Um síðustu áramót var stofnfé aukið um 253 milljónir króna. Stofnféð kom frá aðilum í Fjarðabyggð.

Þeir aðilar sem koma að endurskipulagningunni eru auk Seðlabankans, Byggðastofnun, sveitarfélagið Fjarðabyggð og fyrirtæki og einstaklingar í Fjarðabyggð.

Stofnfjárhlutir Seðlabankans og Byggðastofnunar verða framseldir til bankasýslu ríkisins sem mun fara með 49% eignarhlut í sjóðnum. Í tilkynningu frá Sparisjóði Norðfjarðar segir að eftir endurskipulagninguna sé eiginfjárstaða sjóðsins sterk.