„Við höfum undirbúið okkar álit á því hvernig haga eigi rekstrarlegri endurskipulagningu sjóðanna. Í því sambandi höfum við unnið ákveðna grunnvinnu. Það er alveg ljóst í okkar huga að það er ekki nægjanlegt að ráðast eingöngu í fjárhagslega endurskipulagningu,“ segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, aðspurð hvað taki við er varðar sparisjóðina sem stofnunin heldur utan um.

Eignarhlutur ríkisins í fimm sparisjóðum fóru í hennar umsjá um áramótin en Seðlabanki Íslands tilkynnti á milli jóla og nýárs að samningum um skuldir sparisjóðanna sé lokið. Seðlabankinn eignaðist við endurskipulagningu á bilinu 49,5- 91% af stofnfé þeirra en bankinn varð langstærsti kröfuhafi þeirra við fall Sparisjóðabankans. Hlutur Seðlabankans rann síðan inn í Bankasýsluna.

Elín segir ljóst að ráðast þurfi í endurskipulagningu á rekstri þeirra með mögulegan samruna í huga. Sparisjóðskerfið hafi skroppið gríðarlega saman og sé í dag minna en það var árið 2001. Þá hafi reglulegur rekstur í mörgum tilvikum ekki verið arðbær á árunum fyrir hrun og við því þurfi að bregðast.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .