Kröfuhafar Landsbankans mæta til fundar í dag þar sem slitastjórn mun gera grein fyrir afstöðu sinni til allra forgangskrafna í bankann. 17. febrúar síðastliðinn var uppfærður listi yfir lýstar kröfur á hendur bankanum birtur kröfuhöfum. Auk þess mun skilanefnd Landsbankans leggja fyrir fundinn endurskoðað mat á virði eigna bankans.

Nokkur umræða hefur verið um kostnað við störf skilanefnda og slitastjórna, en sá kostnaður lendir á kröfuhöfum. Í tilviki Landsbankans fellur kostnaðurinn á íslenska skattgreiðendur því hann minnkar endurheimtur á eignum sem fara upp í Icesave-skuldina. Fréttablaðið hefur ásamt öðrum fjölmiðlum gert þetta að umfjöllunarefni og greint frá kostnaði skilanefnda Glitnis og Kaupþings, sem eru að litlu leyti í eigu ríkisins. Hins vegar hafa upplýsingar um þennan kostnað Landsbankans ekki legið fyrir.

Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi gamla Landsbankans, sagði við Viðskiptablaðið 16. febrúar að verið væri að taka saman þessar upplýsingar fyrir kröfuhafafundinn í dag. Þær muni svo liggja fyrir að fundi loknum þegar búið væri að koma þeim á birtingarhæft form.