Stjórnendur Íslandshótela koma til með að endurskoða áform sín um uppbyggingu hótela á Íslandi ef virðiskaukaskattur hækkar. Kostnaður við umrædd verkefni hleypur á milljörðum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu . Meðal þeirra áforma eru stækkun Grand hótels og nýtt hótel á lóð Sjallans á Akureyri.

Nýverið var tilkynnt um hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu úr 11% upp í 24%, seinna mun þó efra virðisaukaskattþrepið lækka aftur niður í 22,5%. Ólafur Torfason, stofnandi Íslandshótela, segir hækkunina ógna rekstri margra hótela. „Áform okkar eru í uppnámi vegna boðaðra breytinga á virðisaukaskatti. Það er mikil óvissa í greininni sérstaklega úti á landi,“ segir Ólafur í samtali við blaðið.

Hann tekur jafnframt fram að reksturinn geti ekki tekið á sig slíka hækkun og að það sé viðbúið að þetta muni hafa áhrif til samdráttar á afkomu hótela.