Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stefnir að því að leggja fram frumvarp í haust þar sem ákvæði búvörulaga um undanþágur mjólkuriðnaðarins frá ákvæðum samkeppnislaga verða endurskoðuð. Að sögn Guðmundar Kristjáns Jónssonar, aðstoðarmanns ráðherra, verður frumvarpið í takt við drög sem kynnt voru á heimasíðu ráðuneytisins þann 6. mars sl.

Guðmundur segir erfitt að segja á þessum tímapunkti hversu miklum breytingum frumvarpið taki frá drögunum en sem stendur er verið að vinna úr athugasemdum sem bárust við frumvarpsdrögin. Einnig hefur átt sér stað samráð við hagsmunaaðila og norsk stjórnvöld frá því að drögin voru kynnt.

Segir hann markmiðið með frumvarpinu að tryggja heilbrigt samkeppnisumhverfi í íslenskum mjólkuriðnaði í samræmi við samkeppnislög en jafnframt tryggja söfnun mjólkur um allt land líkt og núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir.