*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 6. júní 2021 17:03

Endurskoðandi með réttarstöðu sakbornings

Héraðssaksóknari hefur ýmis mál til rannsóknar vegna Sameinaðs sílíkons. Ráðist var í húsleit hjá endurskoðunarfyrirtæki.

Jóhann Óli Eiðsson
epa

Framkvæmd hlutafjárhækkanna í félögum tengdum Magnúsi Garðarssyni og Sameinuðu sílíkoni hefur verið til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Fyrrverandi endurskoðandi félagsins, Rögnvaldur Dofri Pétursson, er meðal þeirra sem hefur stöðu sakbornings í þeirri rannsókn.

Sagt var frá flakki fjármuna þessu tengt á vef Viðskiptablaðsins í gær en svo virðist sem þeir hafi verið færðir inn og út í landinu með það að marki að fá krónur á hagstæðu verði. Skiptastjórar þrotabús Sameinaðs sílikons og Íslenska kísilfélagsins hafa staðfest við Viðskiptablaðið að þeir hafi gert héraðssaksóknara viðvart um meinta refsiverða háttsemi í tengslum við þetta.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti enn fremur við Viðskiptablaðið að embættið hefði ráðist í húsleit hjá EY vegna þessa og að embættið hefði til rannsóknar mögulegt peningaþvætti sem og meint brot á gjaldeyris- og hlutafélagalögum. Þar hefur Rögnvaldur Dofri réttarstöðu sakbornings en ekki hefur tekist að taka skýrslu af Magnúsi þar sem ekki er vitað hvar hann er niðurkominn í veröldinni. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.