Ernst & Young ehf. og Rögnvaldur Dofri Pétursson voru með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í liðinni viku sýknuð af rúmlega 405 milljón króna, auk vaxta og dráttarvaxta, skaðabótakröfu þrotabús United Silicon. Krafan var byggð á því að saknæm háttsemi hefði átt sér stað við hlutafjárhækkun félagsins en fjölskipaður héraðsdómur, skipaður tveimur embættisdómurum og sérfróðum meðdómsmanni, féllst ekki á það.

Í árslok 2016 samþykkti hluthafafundur Sameinaðs Sílikon hf. að hækka hlutafé í félaginu og að hollenska félaginu USI Holding B.V. væri heimilt að skrá sig fyrir rúmlega 405 milljón hlutum í því. Hækkunin var greidd með öllum hlutum í Geysi Capital ehf.

Sérfræðiskýrsla fylgdi með vegna hækkunarinnar en hún var unnin af EY og var það fyrrnefndur Rögnvaldur Dofri sem vann hana. Áður hafði hann aðstoðað við gerð óendurskoðaðs árshlutareiknings. Samkvæmt því verðmati var virði Geysis Capital á bilinu 4,7-5,2 milljónir evra eða um 437,6-495,8 milljónir króna á gengi hækkunarinnar. Endurgjaldið væri því í samræmi við hina nýju hluti.

Undir rekstri málsins var dómkvaddur matsmaður til að leggja mat á virði Geysis Capital á þeim degi er sérfræðiskýrslan er dagsett. Samkvæmt matsgerð hans var virði félagsins um 205 til 291 milljón krónur en það er talsvert undir virði nýju hlutanna í Sameinuðu Silíkoni.

Tvöfölduðu virðið með innbyrðis skiptum

Þrotabúið byggði skaðabótakröfu sína á því að samkvæmt hlutafélagalögum bæri greiðslu fyrir hlutafjárhækkun að vera í það minnsta jafnhá nafnverði. Umþrætt sérfræðiskýrsla hefði verið forsenda þess að hækkunin hefði getað farið fram og því bæru EY og Rögnvaldur Dofri ábyrgð á því að fullnægjandi greiðsla hafi ekki borist.

Helsta eign Geysis Capital var lóðin að Stakksbraut 9 sem hýst hafi kísilverið. Það hafi upphaflega verið keypt á 200 milljónir króna árið 2012, alfarið með lánsfé frá Arion banka. USI Holding hafi árið 2013 Stakksbraut 9 ehf. en selt lóðina til Geysis Capital sama ár á 225 milljónir króna. Mismunurinn á kaupverði og láninu, 25 milljónir króna, var aldrei greiddur og aldrei var greitt af láninu.

Af hálfu þrotabúsins var byggt á því að með óútskýrðum hætti hefði virði lóðarinnar tvöfaldast á nokkurra ára tímabili með því að færa hana milli tengdra aðila. Aldrei hefði verið greitt fyrir hana í þeim viðskiptum fyrir utan 500 þúsund króna greiðslu þegar USI Holding tók yfir Stakksbraut. Í þessu hafi falist flétta. Reksturinn hafi verið aðskilinn lóðinni, leigusamningur hafi verið gerður milli tengdra aðila, sameina síðan lóð og rekstur og margfalda verðmætið.

Skuldir ranglega taldar með

EY og Rögnvaldur Dofri byggðu sýknukröfu sína aftur á móti á því að sérfræðiskýrslan hafi uppfyllt kröfur sem gerðar eru til slíkra plagga. Ætla verði endurskoðendum nokkuð rúm við val á forsendum og aðferðum sem lagðar eru til grundvallar við matið og byggt hafi verið á forsendum sem lágu fyrir á þeim tíma sem matið var gert.

Þá var einnig á því byggt að þrotabúið hefði litið fram hjá nokkrum mikilvægum atriðum í málatilbúnaði sínum. Í lok október 2016 hefði Geysir Capital nefnilega framselt skuldbindingu vegna samnings um sölutryggingu til Kísils Íslands hf. Frá þeim tíma hefði 231 milljón króna skuld ekki verið í bókum þess. Þá hafi Geysir og Sameinað Sílikon samið um að síðarnefnda félagið bæri ábyrgð á leiguskuldbindingum vegna lóðarinnar. Ríflega 400 milljón króna skuldir, sem þrotabúið byggði á að hefðu verið í bókum Geysis á þessum tíma, hafi ekki verið þar.

Enn fremur hefði þrotabúinu ekki tekist að sýna fram á að frumskilyrði skaðabótaábyrgðar, um sök, tjón og orsakatengsl, væru til staðar. Ekki stæðist heldur skoðun að meint tjón væri á pari við nafnverð hinna útgefnu hluta enda hafi sameining Geysis og Sameinaðs Sílikons verið forsenda frekari fjármögnunar síðarnefnda félagsins.

Samkomulag vegna vilja Arion banka

Í niðurstöðu dómsins sagði að hlutafélagalögin hefðu ekki að geyma ákvæði um það hvaða aðferðir endurskoðendur ættu að brúka við gerð slíkrar skýrslu. Það hefði einnig áhrif við matið að endurskoðendur væru opinberir sýslumenn og á þeim hvíldu ríkar skyldur lögum samkvæmt. Því til viðbótar hefði Rögnvaldur Dofri verið endurskoðandi félaganna þriggja, það er Stakksbrautar 9, Geysis Capital og Sameinaðs Sílikons.

„Sú matsaðferð sem hér var beitt er svokölluðu sjóðstreymisaðferð og er hér um að ræða viðurkennda aðferð við verðmat fyrirtækja. Þá hefur stefndi Rögnvaldur Dofri lýst því að hann hafi einnig byggt á árshlutareikningi Geysis Capital ehf. fyrir tímabilið 1. janúar til 31. október 2016 sem hann veitti aðstoð við, eins og fram kemur í áritun frá 16. nóvember 2017. Þar kemur meðal annars fram að vaxtaberandi langtímaskuldir nemi rúmum 200.000.000 króna og er um að ræða lán við Arion banka hf., en fyrir liggur að litið var til þessarar skuldar og þess að veltufjármunir voru umfram skammtímaskuldir við gerð sérfræðiskýrslunnar,“ segir í niðurstöðu dómsins.

Sem fyrr segir byggði þrotabúið á því að ekki gengi að líta til leigusamnings milli Sameinaðs Sílikons og Geysis Capital þar sem hann hefði verið gerður til málamynda milli tengdra aðila. Engin verðmæti hafi því verið í honum og það hafi endurskoðandinn vitað. Samkvæmt niðurstöðu dómsins bentu gögn málsins til þess að umrætt samkomulag hefði verið gerð vegna vilja Arion banka.

„Á þeim tíma sem um ræddi lá ekkert fyrir sem gaf endurskoðandanum tilefni til að ætla að leigusamningurinn væri ekki skuldbindandi þannig að horfa bæri framhjá honum við mat á verðmæti Geysis Capital ehf. Gildir þar einu þó hann hafi vitað að félögin tvö kynnu að sameinast og að það hafi verið fyrirætlan þeirra sem stóðu að baki verkefninu, enda fellur það ekki að skyldum endurskoðanda að reisa mat sitt á þáttum sem óvissa ríkir um, svo sem mögulegum samruna tengdra aðila. Þá er ljóst að heimild til afnota af lóðinni til þeirra nota sem henni voru ætluð hafði fjárhagslegt gildi,“ segir í dóminum. Því hafi ekki borið að virða samninginn að vettugi við gerð matsins.

Þá féllst dómurinn á þau rök EY og Rögnvaldar Dofra að við gerð matsins hefðu rúmlega 400 milljón króna skuldir, sem þrotabúið taldi að hefðu verið inni í Geysi Capital, hvílt á öðrum aðilum en umræddu félagi. Vangaveltur þrotabúsins um mögulegan skort á umboði stjórnenda félaganna til þessa gjörnings voru ekki teknar til greina enda gæti endurskoðandinn ekki borið ábyrgð á slíku.

Af þeim sökum féllst dómurinn ekki á að saknæm háttsemi hefði átt sér stað og því gæti bótaábyrgð ekki hafa stofnast. Kröfum þrotabúsins var því hafnað og það dæmt til að greiða 3,5 milljón króna í málskostnað.