Endurskoðendaráð hefur lokið athugun sinni á framkvæmd endurskoðunar KPMG á ársreikningi fjármálafyrirtækis vegna ársins 2008 en athugunin hefur staðið yfir í tæp þrjú ár.

Í yfirlýsingu KPMG segir að í álitsgerð ráðsins komi ekki fram neinar ávirðingar um að fjárhæðir í ársreikningnum hafi verið rangar. Hins vegar telji ráðið að í ársreikningnum hafi ekki verið fjallað með fullnægjandi hætti um það óvissuástand sem ríkti í íslensku efnahagslífi í árslok 2008, sem gat haft áhrif á verðmæti eigna og mat á áframhaldandi rekstri.

„KPMG og þeir endurskoðendur sem um ræðir benda á að um fyrrgreinda óvissu hafi verið fjallað í áritun stjórnar með ársreikningnum þegar hann var samþykktur vorið 2009 og áritun endurskoðendanna hafi m.a. byggst á þeirri umfjöllun. Þrátt fyrir það er niðurstaða endurskoðendaráðs sú að veita tveimur endurskoðendum KPMG, sem árituðu ársreikninginn, áminningu í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur. KPMG og þeir endurskoðendur sem um ræðir munu una niðurstöðu endurskoðendaráðs,“ segir í yfirlýsingunni.