Þrír endurskoðendur hjá KPMG eru meðal ákærðu í máli sérstaks saksóknara gegn Karli og Steingrími Wernersonum og Guðmundi Ólasyni vegna kaupa Milestone á hlutabréfum Ingunnar Wernersdóttur.

Endurskoðendunum, þeim Hrafnhildi Fanngeirsdóttur, Margréti Guðjónsdóttur og Sigurþóri Charles Guðmundssyni, er gert að sök að hafa framið meiri háttar brot gegn lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Milestone og samstæðureikninga Milestone samstæðunnar fyrir árin 2006 og 2007.

Í ákærunni segir að Margrét og Sigurþór hafi áritað, án athugasemda, samstæðureikning Milestone fyrir árið 2006 þrátt fyrir að í efnahagsreikningi væri færð til eignar krafa á Milestone Import Export að fjárhæð 2,7 milljarðar króna, en engin gögn hafi legið fyrir sem hafi sýnt fram á tilvist hennar eða gerðu mögulegt að meta virði hennar með áreiðanlegum hætti. Sama á við um samstæðureikning fyrir árið 2007, þegar færðar voru til eignar kröfur á Milestone Import Export að fjárhæð 5,2 milljarðar.

Þá eru þau öll þrjú sögð hafa í maí 2007, eftir að lokið var við endurskoðun ársreiknings Milestone fyrir árið 2006, bætt inn í endurskoðunarmöppu lánssamningi milli Milestone og Milestone Import Export, dagsettum 30. desember 2006 en gerðum í apríl 2007. Með þessari háttsemi hafi þau látið líta svo út að samningurinn hafi verið til staðar við samningu og endurskoðun ársreikningsins.

Síðla árs 2009, eftir að lokið var við endurskoðun ársreiknings Milestone fyrir árið 2007, eiga þau að hafa bætt inn í endurskoðunarmöppu tveimur mismunandi skjallaknippum. Þau eiga að hafa innihaldið skjöl, sem ákærða Hrafnhildur á að hafa breytt. Með því að útbúa og breyta þessum skjölum og koma þeim fyrir í endurskoðunarmöppunni eru þau sögð hafa látið ranglega líta svo út að við endurskoðun ársreikninga Milestone fyrir árin 2006 og 2007 hefði farið fram könnun á tilvist krafna Milestone á hendur Milestone Import Export.