Nokkur uppgangur hefur verið hjá stóru endurskoðunarfyrirtækjunum fjórum – KPMG, Deloitte, PricewaterhouseCoopers (PwC) og Ernst & Young (EY) – sem högnuðust um tæpan milljarð á síðasta ári, eða 924 milljónir króna. Samanlögð velta fyrirtækjanna hefur aukist um fjórðung á undanförnum þremur árum, hagnaður þeirra nær tvöfaldast og arðgreiðslur aukist um helming.

Eftir nokkra ládeyðu í verkefnaflæði og tekjuvexti í um tvö ár eftir 2012, þegar verkefni tengd endurskipulagningu á rekstri og efnahagsreikningum fyrirtækja í kjölfar bankahrunsins voru að mestu lokin, hefur endurskoðunargeirinn notið góðs af miklum hagvexti og stækkandi kúnnahópi úr röðum ferðaþjónustunnar. Einnig hafa endurskoðunarfélögin lagt aukna áherslu á þjónustu aðra en endurskoðun á síðustu árum.

Ber þar helst að nefna ráðgjöf til fyrirtækja og opinberra aðila á sviði fjármála, reksturs og skattamála, svo dæmi séu nefnd. Einnig framkvæma félögin rannsóknir og greiningar fyrir fyrirtæki og hið opinbera.

Mestur var hagnaður KPMG á síðasta rekstrarári. KPMG er stærsta endurskoðunarfyrirtækið á Íslandi. Hagnaður félagsins nam 379 milljónum króna á síðasta ári og jókst um 63% milli ára. Næststærsta félagið, Deloitte, hagnaðist um 255 milljónir og dróst hagnaðurinn saman um tæpan fjórðung milli ára. PwC hagnaðist um 188 milljónir og tæplega fjórfaldaði hagnaðinn milli ára. Þá hagnaðist EY um 103 milljónir, sem er fimmtungs aukning milli ára.

Samtals jókst hagnaður endurskoðunarfyrirtækjanna um 224 milljónir eða um þriðjung milli ára.

Félögin fjögur greiddu út 738 milljónir í arð til hluthafa sinna á síðasta ári. Á síðustu fjórum rekstrarárum hafa 2,5 milljarðar króna runnið til um hundrað hluthafa félaganna.

Hafa ber í huga að rekstrarár endurskoðunarfélaganna ná ekki yfir sama tímabil. Rekstrarár Deloitte er frá 1. júní til 30. maí, rekstrarár EY og PwC er frá 1. júlí til 30. júní og rekstrarár KPMG er frá 1. október til 30. september.

Nánar er fjallað um málið í 300 stærstu , sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar Verslunar. Hægt er að kaupa bókina hér .