Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, ræðir um stöðu efnahagsmála í viðtali í bókinni 300 stærstu sem kom út nýverið. Hún segir frá því hvernig aðilar á vinnumarkaði voru ósammála um hvort forsendubrestur væri uppi í tengslum við lífskjarasamninginn vegna kórónukreppunnar, en Ásdís hefur áhyggjur af efnahagslegum áhrifum launahækkananna.

„Við erum öll sammála um mikilvægi þess að verja störf og viðhalda stöðugleika. Atvinnuleysi sem komið er í 10% og fer hækkandi er óásættanleg þróun. Þegar hundruð milljarða króna hverfa úr landsframleiðslunni á svipstundu gefur augaleið að það er lítil innistæða fyrir launahækkunum hjá atvinnulífinu. Afleiðingin er fyrirséð, aukið atvinnuleysi og verðbólga. Þegar við bendum á þetta höfum við verið sökuð um að viðhalda meintum áróðri Samtaka atvinnulífsins um að aldrei sé svigrúm til launahækkana. Það er ekki rétt. Þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður töldum við einmitt svigrúm til launahækkana, árlega um 40-50 milljarða króna, en þetta mat var byggt á þeim forsendum að hér yrði ekki heimsfaraldur sem myndi svo valda alheimskreppu. Þetta er enginn áróður. Það sjá allir sem vilja að hér varð tekjubrestur og við því þarf að bregðast," segir Ásdís.

Endurskoði umhverfi kjarasamninga

Kjarasamningsumhverfið á Íslandi er flókið, óskilvirkt og á skjön við hin Norðurlöndin. Því er það fagnaðarefni að stjórnvöld boði heildstæða endurskoðun á framtíðarumhverfi kjarasamninga í nánu samstarfi við heildarsamtök á vinnumarkaði að mati Ásdísar.

„Mikið er í húfi enda hvergi hærra hlutfall launafólks í stéttarfélagi en á Íslandi, eða rúmlega 90%. Árlegar launahækkanir og verðbólga hér á landi eru að jafnaði þrefalt meiri en á hinum Norðurlöndunum og vaxtastig margfalt hærra að jafnaði. Ef vilji er til að standa vörð um störf og stöðugleika þarf að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga," segir Ásdís.

Nauðsynlegt sé að horfa til undirliggjandi verðmætasköpunar, líkt og tíðkast á hinum Norðurlöndunum.

„Hér þarf að ganga út frá stöðu útflutningsgreina við samningagerð líkt og gert er á Norðurlöndum. Útflutningsgreinar gefa merkið, sem felst í því að samkomulag er um það á vinnumarkaði að samningsaðilar í útflutningsgreinum gera fyrstu kjarasamninga og önnur svið fylgja svo. Þannig er staðið vörð um samkeppnishæfni þjóðarbúsins sem stuðlar að betri lífskjörum og meiri kaupmætti í stað óreiðu og upplausnar."

Fyrir um áratug hafi verið sameiginlegur skilningur á því hjá aðilum vinnumarkaðar að breytingar yrðu að eiga sér stað í kjarasamningaumhverfinu. Sú vinna hófst árið 2011 en lauk hins vegar fimm árum síðar vegna ósamstöðu um hvaða leið ætti að fara og ferlið stöðvaðist.

„Aðilar vinnumarkaðar gegna mikilvægu hlutverki í almennri hagstjórn og ábyrgðin er mikil. Fjármálastefnan tók stórstígum framförum eftir síðustu efnahagskreppu og mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á umgjörð og ábyrgð Seðlabankans. Aðilar vinnumarkaðar verða að sýna ábyrgð því annars er stefnu ríkisfjármála og peningamála ógnað. Öll viljum við stöðugt gengi, stöðugt verðlag og lága vexti. Það er hins vegar óskhyggja að ætla að við getum búið við slík skilyrði ef allir armar hagstjórnar sýna ekki ábyrgð."

Þegar Ásdís er spurð hvort vinnumarkaðsmálin verði stóri lærdómur þessarar kreppu, segist hún óttast að stöðugleikanum sé því miður ógnað með óbreyttri stefnu. Endurbætur á kjarasamningslíkani taki tíma og sú vinna þyrfti að hefjast sem fyrst.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út nýverið. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .