*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 31. janúar 2017 14:38

Endurskoði vinnulöggjöf frá 1938

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim, segir verkfall lítils hluta sjómanna halda sjávarútveginum í gíslingu.

Höskuldur Marselíusarson
Haraldur Guðjónsson

Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brim segir tveggja mánaða verkfall sjómanna hafa verið mjög skaðlegt sem hljóti að kalla á umræðu um endurskoðun vinnulöggjafarinnar á Íslandi frá árinu 1938.

„Það er mjög óeðlilegt að lítil stéttarfélög geti haldið heillri atvinnugrein í gíslingu í marga mánuði," segir Guðmundur spurður hvort gangast ætti að kröfum sjómanna.

„Þetta verkfall er búið að skaða okkur alveg gríðarlega mikið, þetta er mjög slæmt. Það eru kannski ekki allir sem átta sig á því að skipstjórnarmenn eru ekki í verkfalli, þeir eru búnir að semja og vélstjórar eru ekki í verkfalli.

Þetta er bara lítill hópur sjómanna sem í raun og veru heldur sjávarútveginum í gíslingu í dag."

Vinnulöggfjöfin frá árinu 1938

Guðmundur segir erfitt að segja til um það í stuttu máli hvaða breytingar hann vilji sjá á verkalýðsmálum á Íslandi spurður hvort verkalýðsfélög ættu þá frekar að byggja á starfsgreinum heldur en starfsstéttum.

„Ég held það þurfi endurskoða vinnulöggjöfina frá 1938," segir Guðmundur, sem vísar meðal annars að há laun séu greidd á frystitogurum.

„Það þarf að færa meiri ábyrgð yfir á stéttarfélögin, en ég hugsa að þessi umræða muni koma upp núna eftir þetta verkfall.

Ef Flugfélag Íslands væri að borga léleg laun sem myndi þýða að Wow air yrði að vera í verkfalli í tvo mánuði, yrði það ekki samþykkt."

Missa trúverðugleika

Guðmundur segir verkfallið nú þegar hafa verið sjávarútveginum skaðlegt með missi markaða. „Bæði markaða sem og áreiðanleika og trúverðugleika," segir Guðmundur.

„Svo er allt okkar starfsfólk búið að vera launalaust, en einnig hefur þetta áhrif á alla birgja, umbúðaframleiðendur og fleiri sem við erum í viðskiptum við."