Enn er unnið að því að afmarka landgrunnið við Ísland. Landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur nú fengið endurskoðaða greinargerð Íslands um afmörkun ytri marka landgrunnsins á Reykjaneshrygg utan 200 sjómílna.

Utanríkisráðuneytið segir þessa greinargerð ekki ná til hins umdeilda Hatton Rockall-svæðis í suðri og ekki heldur til austurhluta Reykjaneshryggjar sem skarast við það svæði, heldur nær hún til landgrunns á vestur-, suður- og suðausturhluta Reykjaneshryggjar suðvestur af landinu.

Ráðuneytið segir að landgrunnsnefndin í New York muni taka þessa greinargerð fyrir við fyrsta tækifæri, en tillagna frá henni sé ekki að vænta fyrr en eftir nokkur ár.

Síðast afhenti Ísland afhenti greinargerð árið 2009 og landgrunnsnefndin skilaði árið 2016 tillögu sinni vegna þeirrar greinargerðar. Þar var fallist á ytri mörk vestur af Reykjaneshrygg innan 350 sjómílna, en ekki fyrir svæðið utan 350 sjómílna.

Starfshópur undir stjórn utanríkisráðuneytisins hefur unnið að endurskoðaðri greinargerð fyrir Reykjaneshrygg síðustu árin og miðaði sú vinna að því að „styrkja jarðfræðilegar röksemdir Íslands, ásamt því að afmarka ytri mörk landgrunnsins á suðausturhluta Reykjaneshryggjar til að gefa betri heildarmynd af því svæði sem er undir áhrifum frá heita reitnum undir Íslandi.“