Hagstofa Íslands hefur gefið út endurskoðaða þjóðhagsspá sína en gert er ráð fyrir 8,4% samdrætti.

Reiknað er með snörpum viðsnúningi á næsta ári og að vöxtur landsframleiðslunnar verði 4,9%. Næstu ár er gert ráð fyrir hagvexti á bilinu 2,5%-2,9%. Horfur eru á að þjóðarútgjöld dragist saman um 4,4% í ár en að þau aukist um 4,3% árið 2021.

Gert er ráð fyrir því að einkaneysla dragist saman um 6,1% í ár og að atvinnuleysi verði að jafnaði 8,2%. Á næsta ári er spáð 5,5% aukningu einkaneyslu og að atvinnuleysi verði 6,8%. Útlit er fyrir að útflutningur dragist saman um rúm 30% í ár en búist er við bata á næsta ári og rúmlega 19% vexti.