Fasteign skilaði ársreikningi sínum fyrir árið 2009 í lok síðustu viku. Þar kemur fram að hreinar leigutekjur félagsins var um 1,7 milljarðar króna á árinu 2009. Þrátt fyrir að Fasteign hafi endurfjármagnað flestar skammtímaskuldir sínar á síðasta ári þá át fjármagnskostnaður upp nánast allan rekstrarhagnað félagsins. Bókfærður rekstrarhagnaður þess í fyrra var einungis 3,7 milljónir króna.

Virði eigna háð mikilli óvissu

Virði eigna Fasteignar hækkaði á milli ára um tæpa 5 milljarða króna, í um 50,5 milljarða króna. Virði fasteigna í byggingu og þróun skiptir þó miklu í þessum tölum. Það jókst um 3,5 milljarða króna á milli ára og stóð í 17,7 milljörðum króna um síðustu áramót. Í ársreikningi Fasteignar segir að stærstu verkefnin sem eru eignfærð undir þeim lið séu „háskólabygging Háskólans í Reykjavík við Öskjuhlíð, höfuðstöðvar Glitnis banka við Kirkjusand, og bygging Hljómahallarinnar í Reykjanesbæ“. Vægast sagt mikil óvissa ríkir um raunvirði þessara eigna. Til dæmis liggur fyrir að nýjar höfuðstöðvar Glitnis muni ekki verða byggðar. Skuldir Fasteignar hækkuðu úr 34,2 milljörðum króna í 39,7 milljarða króna í fyrra.

Mat eigna annað ef rekstur leggst af

Endurskoðendur félagsins gera fyrirvara við ársreikninginn. Í honum segir að veruleg óvissa ríki um bókfært verð nýbyggingar HR og lóðarinnar við Kirkjusand. Stjórnendur félagsins hafi verið í viðræðum við Íslandsbanka um viðunandi framtíðarlausn á eignarhaldi þessara eigna. Þær viðræður gætu haft „veruleg áhrif á eigið fé félagsins. Það gæti leitt til þess að skilyrði í lánasamningum yrðu ekki uppfyllt [...] Ekki er víst að mat eigna væri með sama hætti ef rekstur félagsins legðist af eða þegar niðurstöður viðræðnanna liggja fyrir. Framsetning eigna í efnahagsreikningi miðast við áframhaldandi starfsemi. Óvissa um framangreind atriði kunna að valda því að vafi leiki á rekstrarhæfi félagsins“.